Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að hún hefði ekki treyst sér til að sniðganga niðurstöðu ráðgjafa forsætisráðuneytisins við ráðningu á skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu.
Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu, að ráðuneytið hefði brotið jafnréttislög þegar Arnar Þór Másson var skipaður skrifstofustjóri skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu í fyrra. Hefði Anna Kristín Ólafsdóttir, sem einnig sótti um starfið og kærði niðurstöðuna, verið að minnsta kosti jafn hæf.
Jóhanna sagði, að hún treysti Önnu Kristínu Ólafsdóttur mjög vel og hefði skipað hana sem formann nefndar, sem væri að endurskoða stjórnsýsluna, meðal annars það hvernig staðið er að ráðningum.
„Hún stóð sig mjög vel í því," sagði Jóhanna. „Hún sagði sig að vísu frá málinu þegar niðurstaða lá fyrir í þessu máli. Hún var mjög hæf í þessu efni, en ég treysti mér ekki til að ganga framhjá mati, sem sett er í mínar hendur, og taka aðila, sem metinn er númer fimm, og setja hann númer eitt. Ég bara treysti mér ekki til þess," sagði Jóhanna.