Gísli Örn Garðarsson leikari og leikstjóri hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin að þessu sinni.
Vigdís Finnbogadóttir afhenti Gísla Erni verðlaunin, áletraðan verðlaunagrip úr áli og verðlaunafé að upphæð 1 milljón króna. Aðrir í dómnefndinni eru Rannveig Rist, Sveinn Einarsson og Örnólfur Thorsson.
Íslensku bjartsýnisverðlaunin voru fyrst afhent árið 1981, þá kennd við upphafsmann sinn, danska athafnamanninn Peter Brøste. Þegar hann dró sig í hlé skoraði hann á íslensk fyrirtæki að halda verðlaununum við og hefur Alcan á Íslandi hf. verið bakhjarl þeirra frá árinu 2000. Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari þeirra.
Peter Brøste kom til Íslands til að vera viðstaddur athöfnina í Iðnó í dag.
Gísli Örn Garðarsson útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 2001 og stofnaði það sama ár, ásamt fleirum, leikhúsið Vesturport. Gísli Örn hefur leikstýrt fjölda leiksýninga á vegum Vesturports, oft í samstarfi við Borgarleikhúsið og önnur leikhús. Má þar nefna Rómeó og Júlíu, Woyzeck, Hamskiptin, Söngleikinn Ást, Kommúnuna og Faust.
Gísli Örn samdi einnig eða gerði leikgerð að mörgum þessara verka, ýmist einn eða í félagi við aðra. Hann hefur enn fremur leikið fjölmörg stór hlutverk á sviði, bæði á Íslandi og erlendis, og samið og leikið í fjölmörgum kvikmyndum, sem margar hverjar hafa verið unnar á vegum Vesturports, svo sem myndirnar Börn, Foreldrar og Brim.