Að ýmsu að huga í svefnherberginu

Umhverfisstofnun opnar nýja heimasíðu á ársfundi stofnunarinnar á föstudag þar sem verða fjölmargar nýjungar. Má þar meðal annars nefna betri upplýsingar um friðlýst svæði og nýjar myndir, þar á meðal 360° myndir. Upplýsingarnar um svæðin, sem eru rúmlega 100, verða aðgengilegar í gegnum Íslandskort. Með sama hætti mun hver sem er geta kynnt sér eftirlit Umhverfisstofnunar með mengandi starfsemi.

Einnig má nefna nýjar síður fyrir almenning um heilsu og neytendamál, t.d. um hættuleg efni í vörum, s.s. hormónaraskandi og krabbameinsvaldandi efni í leikföngum og snyrtivörum, upplýsingar um hvað þarf að hafa í huga varðandi bílinn með heilsuna og umhverfið að leiðarljósi og grænt kynlíf svo eitthvað sé nefnt.

Í texta á síðunni um grænt kynlíf segir meðal annars: Umhveisfræðunum er ekkert óviðkomandi. Þú hefur e.t.v. staðið þig eins og hetja í að flokka sorpið, ganga og hjóla í stað þess að bruna um á einkabílnum, kaupa minna og þá bara umhverfismerkt! En umhverfismálin einskorðast ekki bara við þessar daglegu athafnir því það þarf líka að huga að ýmsu í svefnherberginu.

Grænn og heilsusamlegur lífsstíll hjálpar til við að viðhalda lönguninni í amstri nútímans. Athöfnin sjálf er líka góð líkamsrækt! Auk þess hafa rannsóknir sýnt að kynlíf sé samofið vellíðan og hamingjuríku lífi. Veldu náttúrulega gúmmísmokka fram yfir þá sem ekki brotna niður í náttúrunni, ef slíkt býðst. Árlega eru notaðir í heiminum um 10 milljarðar smokka sem enda í heimilissorpinu.

Leikföngin eru misjöfn að gæðum og gerðum. Því miður er meirihluti þeirra gerður úr PVC-plasti sem inniheldur þalöt sem eru hormónaraskandi og vinyl klóríð sem er krabbameinsvaldandi. Við framleiðslu og brennslu á PVC losnar eitt af skaðlegustu efnum sem til eru, díoxín. Ýmis leikföng eru framleidd úr gleri sem er mun umhverfisvænni kostur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert