Margrét Ólafsdóttir leikkona látin

Margrét Ólafsdóttir.
Margrét Ólafsdóttir.

Margrét Ólafsdóttir, leikkona, er látin, 79 ára að aldri. Hún lést í morgun á Landspítalanum við Hringbraut.

Margrét var fædd 12. júní árið 1931 í Vestmannaeyjum. Foreldrar hennar voru Ragnheiður Kristjánsdóttir, húsmóðir, og Ólafur Ragnar Sveinsson, heilbrigðisfulltrúi, á Árgilsstöðum í Hvolshreppi í Rangárvallasýslu.
Steindór Hjörleifsson, leikari, er eftirlifandi eiginmaður Margrétar. Dóttir þeirra er Ragnheiður Kristín, leikkona, en börn hennar eru Steindór Grétar Jónsson og Margrét Dórothea Jónsdóttir.

Margrét lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja árið 1948. Frá 1949 til 1950 stundaði hún nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar. Árið síðar lauk Margrét svo burtfararprófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins.

Fyrsta hlutverk hennar í Þjóðleikhúsinu var May Fielding í „Söngbjöllunni“ frá 1950 til 1951. Eftir að hún flutti sig yfir til Leikfélags Reykjavíkur árið 1953 lék hún einna fyrst í „Undir heillastjörnu“, þar sem hún lék í fyrsta sinn á móti eiginmanni sínum Steindóri. Þar var hún fastráðin frá árinu 1973. Þá lék Margrét ýmis hlutverk í útvarpi og sjónvarpi, meðal annars í sjónvarpsþáttunum „Sigla himinfley“ árið1996.

Í kvikmyndum lék hún meðal annars í „Börnum náttúrunnar“, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna, „Fíaskó“ og kvikmynd Baltasars Kormáks, „A Little Trip to Heaven“.

Síðasta stóra hlutverk hennar var Lovísa í „Domino“, leikriti Jökuls Jakobssonar. Síðasta hlutverk hennar hjá Leikfélagi Reykjavíkur var í „Horft frá brúnni“ ásamt Steindóri eiginmanni hennar árið 1999. Sama ár hlaut hún viðurkenningu sem heiðurslistamaður Garðabæjar.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert