Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að til greina komi að fá hlutlausan rýnihóp, með fulltrúum í háskólasamfélaginu og víðar, til að fara yfir matsferlið við ráðningu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytisins og úrskurð kærunefndar jafnréttismála og hvernig bregðast eigi við honum.
Jóhanna sagði, þegar hún flutti Alþingi skýrslu um úrskurð kærunefndarinnar, að hún tæki niðurstöðu nefndarinnar alvarlega þótt hann hefði komið sér á óvart. Sagði hún að sér og öðrum þeim, sem stóðu að ráðningu skrifstofustjórans hefði verið verulega brugðið þegar niðurstaða kærunefndarinnar barst vegna þess talið var að unnið hefði verið fullkomlega faglega að ráðningunni.
„Dettur einhverjum heilvita manni í hug, að þrjár konur, ég sem forsætisráðherra, ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu og mannauðsráðgjafinn, sem einnig er kona, hafi eina einustu mínútu gert sér í hugarlund að þær væru að brjóta jafnréttislög með þessari skipun í embætti?" sagði Jóhanna.
Jóhanna sagði, að rifjuð hefðu verið upp ummæli, sem hún lét falla á Alþingi 2004 um þá niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála að Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði brotið jafnréttislög við skipun á hæstaréttardómara.
„Ég get engan veginn fallist á þá afstöðu, að það tilvik sem hér er til umræðu sé sambærilegt því máli," sagði Jóhanna.