Króatíski skíðakappinn Ivica Kostelic og „tengdasonur Íslands“ var krýndur heimsbikarmeistari karla í alpagreinum á skíðum á laugardaginn var. Hann var á heilsuhóteli í Króatíu, ásamt Elínu Arnarsdóttur unnustu sinni, þegar Morgunblaðið náði tali af þeim.
„Þetta eru mestu verðlaun sem hægt er að vinna í alpagreinum að mínu mati og keppikefli allra skíðamanna,“ sagði Kostelic. Hann kvaðst hafa stefnt að því undanfarið að sigra í heildarstigakeppni heimsbikarkeppninnar. Á árum áður einbeitti hann sér meira að sviginu og tæknilegum atriðum skíðaíþróttarinnar. Eftir meiðsli sem hann varð fyrir lagði hann hraðagreinar á hilluna um tíma. Svo þegar hann fór að stefna að sigri í samanlögðu fór hann aftur að æfa brun og risasvig.
„Eftir framfarir í þessum greinum sáum við að ég átti möguleika á að vinna heildarhnöttinn,“ sagði Kostelic. Hann vann heimsmeistaratitil í svigi 2003 og silfurverðlaun í svigi á Ólympíuleikunum 2010 og eins í alpatvíkeppni 2006 og 2010. Hann hefur sigrað 18 sinnum í mótum til heimsbikarsins.
Kostelic var mikið fagnað þegar hann sneri heim til Króatíu eftir sigurinn í Lenzerheide í Sviss á laugardaginn var. „Fólk kom til mín úti á götu og óskaði mér til hamingju. Það var allt frá leikskólabörnum upp í háaldraða sem óskuðu mér til hamingju. Það virðast allir hafa fylgst með mér allt keppnistímabilið. Fólkið í hverfinu mínu sló upp móttökuhátíð og það kom mér mjög á óvart. Það var alveg frábært,“ sagði Kostelic. Hann sagði að Króatar gleddust með honum.
Aðstaða til skíðaiðkunar í Króatíu er heldur dapurleg um þessar mundir og eina skíðalyftan sem var í lagi í vetur er nú biluð. Kostelic kvaðst vona að úr því yrði bætt og að sigur hans yrði ungum Króötum hvatning til að leggja sig fram við æfingar. Hann sagði að undanfarin ár hefðu fleiri börn og unglingar æft skíði í Króatíu en þegar hann og Janica systir hans, sem er margfaldur verðlaunahafi í skíðaíþróttum, voru börn.
„Það er ekkert ómögulegt í íþróttum,“ sagði Kostelic. „Vonandi eigum við eftir að eignast fleiri meistara í framtíðinni.“ Hann kvaðst stefna að þátttöku í vetrarólympíuleikunum í Sochi í Rússlandi árið 2014.
Ivica og Elín búa í Zagreb í Króatíu. „Hann kann að segja „ég er tengdasonur Íslands“ á íslensku,“ sagði Elín og hló.
Hún æfði sjálf og keppti á skíðum á yngri árum og var m.a. í landsliði Íslands 2003-2005. Elín kvaðst hafa kynnst því hversu gríðarleg vinna liggur að baki góðum árangri í skíðaíþróttinni.