Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sendi bréf á tölvupóstlista Samfylkingarinnar í kvöld þar sem hún fjallar um niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála, sem komst að þeirri niðurstöðu að forsætisráðuneytið hefði brotið jafnréttislög. Er bréfið birt á eyjunni.is í kvöld.
„Á dauða mínum átti ég von frekar en því að einhverjir kæmust að þeirri niðurstöðu að ég hefði brotið jafnréttislög. Fátt hefur enda staðið mér nær í pólitísku starfi mínu en baráttan fyrir jafnrétti kynjanna og í nafni þeirrar baráttu ekki síst tók ég að mér það verkefni að verða formaður Samfylkingarinnar og fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Íslands. Með nýjum úrskurði kærunefndar jafnréttismála stend ég hinsvegar í þessum sporum og veit varla hvaðan á mig stendur veðrið," segir í bréfinu.
Með bréfinu sendi Jóhanna skýrslu, sem hún flutti um málið á Alþingi í dag.