Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, segir á Facebook-síðu sinni að það segi sitt um stöðuna í samfélaginu að það sé gjarnan vísað til meints almenningsálits í tengslum við vafasamar ákvarðanir.
„Hvað hefði verið sagt ef...?" „Hvað verður sagt ef...?" Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir engu máli hvað sagt er. Það eina sem skiptir máli er að gera það sem maður veit að er rétt," segir Ingibjörg Sólrún.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, spurði í viðtölum í gærkvöldi hvað hefði verið sagt ef hún hefði ákveðið að ráða Önnu Kristínu Ólafsdóttur, sem sótti um stöðu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu og tekið hana fram yfir þann sem ráðinn var. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að forsætisráðuneytið hefði brotið jafnréttislög með ráðningunni í embættið.
„Ég spyr nú hvað menn hefðu sagt, ef ég hefði ráðið kærandann... sem var í hæfnismati sett í fimmta sæti. Ef ég hefði ráðið hana, hefði ég þá ekki verið ásökuð um pólitíska spillingu vegna þess að hún er jú flokkssystir mín?" sagði Jóhanna í fréttum Stöðvar 2.