Tillögur um sameiningu leik- og grunnskóla í Reykjavík hafa í för með sér að 60 leikskólastjórnendur og 13 grunnskólastjórnendur fá uppsagnarbréf, þar af eru 70 konur og 3 karlar.
Þetta kemur fram í umsögn Kennarasambandsins um sparnaðartillögurnar, en sambandið leggur til að tillögurnar verði dregnar til baka. Sambandið segir að þessar aðgerðir gangi þvert á mannréttindastefnu borgarinnar og svokallaða kynjaða fjárhagsáætlunargerð. Sambandið segir að fjárhagslegur og rekstrarlegur ávinningur sé lítill miðað við heildarrekstrartekjur Reykjavíkurborgar.
„Rökstuðningur fyrir faglegum ávinningi í skýrslunni virðist vera lítið ígrundaður og hægt að hrekja hann í mörgum tilvikum með jafngildum faglegum rökum. Fram hefur komið að stjórnendur, kennarar, starfsmenn og foreldrar eru ósáttir við þessar tillögur og hafa þær þegar skapað mikla óvissu og óróa í skólastarfi þeirra stofnanna sem sameina á. Stöðugleiki og öryggi er lykilforsenda fyrir góðu skólastarfi. Þvingaðar sameiningar munu ekki hafa faglega skólaþróun í för með sér heldur þvert á móti andstöðu og erfiðleika sem erfitt verður að vinna úr og taka mun langan tíma,“ segir í umsögn aðildarfélaga KÍ.