Becromal gerir strax úrbætur

Verksmiðja Becromal í Krossanesi á Akureyri.
Verksmiðja Becromal í Krossanesi á Akureyri. Skapti Hallgrímsson

„Stjórn Becromal mun taka þetta mál föstum tökum og ekki bíða með aðgerðir heldur fara strax í dag í úrbætur,“ sagði Eyþór Arnalds. Hann er í stjórn Becromal á Íslandi. Umhverfisstofnun segir að aflþynnuverksmiðja Becromal hafi brotið gegn starfsleyfi sínu.

Umhverfisstofnun sendi Becromal áform um áminningu og gerði kröfu um að fyrirtækið skili áætlun um hvenær það áformi að ljúka úrbótum ekki síðar en 4. apríl. Eyþór sagði að ekki yrði beðið þar til sá frestur rennur út.

„Við höfum þegar sett af stað aðgerðir til að leysa þetta mál. Aðalatriðið er að við séum með þessi mál í lagi,“ sagði Eyþór. Hann sagði ástandið óásættanlegt, ekki einungis fyrir Umhverfisstofnun heldur einnig fyrir Becromal. Fyrirtækið leggi mikla áherslu á að þessi mál séu í lagi. 

Þegar er byrjað að bæta við dælum til að ná meira jafnvægi í sýrustigi frárennslisins. Einnig verður eftirlit aukið og sagði Eyþór litið svo á að það sé eftirlitsskylda bæði til stjórnar og Umhverfisstofnunar. Eyþór sagði að stjórnin muni fylgjast með þessu daglega.

Í tilkynningu Umhverfisstofnunar segir að aflþynnuverksmiðjan hafi brotið gegn starfsleyfinu í þremur atriðum. Þ.e. grein 2.8 um sýrustig í fráfrennsli, grein 3.1 um mælingar og grein 4.5 um tilkynningar á frávikum og bilunum á mengunarvarnarbúnaði. 

Eyþór sagði að bætt verði úr mælingum og þær gerðar handvirkt daglega til að byrja með. Hann sagði það hafa komið stjórn fyrirtækisins á óvart að sýrustig frárennslis og mælingar væru ekki í lagi. „Við lýsum vonbrigðum okkar með það,“ sagði Eyþór. 

Í aflþynnuverksmiðjunni verða 60 vélasamstæður. Nú þegar eru meira en 50 vélasamstæður komnar í gang og verksmiðjan á að ná fullum afköstum í maí næstkomandi.

Frárennsli verksmiðjunnar fer til bráðabirgða í fráveitukerfi Akureyrarbæjar og þaðan út í sjó við Krossanes. Í framtíðinni verður frárennslinu veitt í hreinsistöð í Sandgerðisbót  og á það að gerast eigi síðar en 1. ágúst 2012. 

Eyþór Arnalds.
Eyþór Arnalds. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert