Ekki þrávirk efni í menguninni

Frá Krossanesi
Frá Krossanesi

„Þetta er sama efni og við notum til að þrífa klósett. Það er í almennri notkun og ef við bætum klór við erum við komin með sjó,“ sagði Hreiðar Þór Valtýsson, lektor í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri, um lútinn frá verksmiðju Becromal í Krossanesi.

Hann sagði að í þessari mengun væru ekki þrávirk efni sem hefðu langtíma áhrif á lífríkið. Hreiðar sagði að það sem skipti mestu í þessu sambandi væri magnið, en ekki hefur komið fram hve mikil losunin er.

Fram hefur komið að vökvinn sem fer í sjóinn er stundum mjög lútaður, eða basískur.  

Hreiðar er forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar HA. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa heyrt af fiskadauða eða öðrum sýnilegum áhrifum af umræddri mengun. 

„Þetta er búið að vera í gangi í tvö ár. Ef þetta væri að hafa einhver svona áhrif þá hefði það komið í ljós. Það gætu verið einhver staðbundin áhrif en væntanlega er þetta fljótt að þynnast,“ sagði Hreiðar.

Hann taldi þetta mál bera vott um kæruleysi í umhverfismálum, sem sé svolítið landlægt vandamál. „Það er ástæða fyrir lögum og reglum sem menn eiga bara að hlýða,“ sagði Hreiðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert