Tæplega fjórðungur einstæðra foreldra sögðust vera með húsnæðislán í vanskilum árið 2010 og hafa vanskil aukist verulega frá hruni.
Þetta er meðal niðurstaðna í skýrslu um konur í kreppu sem unnin var fyrir velferðarvaktina.
Vanskil lána hafa aukist töluvert meðal einstæðra foreldra og mest meðal þeirra af öllum heimilisgerðum. Af þeim sögðust 23,5% vera í vanskilum með húsnæðislán eða leigu árið 2010, en meðaltalið fyrir árin 2004–2009 var 14,5%. Enn fleiri, eða tæplega þriðjungur einstæðra foreldra, sögðust vera í vanskilum með önnur lán en húsnæðislán. Til samanburðar sögðust tæplega 10% heimila þar sem búa tveir fullorðnir og tvö börn vera í vanskilum með húsnæðislán eða leigu árið 2010. Af þeim heimilum sögðust 14,5% vera í vanskilum með önnur lán. Næst einstæðum foreldrum komast tveir fullorðnir með fleiri en tvö börn. Árið 2010 sögðust 19,2% í þeim hópi vera í vanskilum með húsnæðislán eða leigu, en 25,8% í vanskilum með önnur lán.65