Launamunur kynjanna hefur minnkað frá því að kreppan skall á. Ástæðan er sú að karlar fengu miklar launahækkanir á útþenslutímanum en hafa síðan lækkað í launum. Karlar hafa fremur orðið fyrir beinni launaskerðingu vegna kreppunnar meðan konur taka frekar á sig skerðingu á starfshlutfalli.
Þetta er meðal niðurstaðna í viðamikilli skýrslu um konur í kreppu sem unnin var fyrir velferðarvaktina. Höfundarskýrslunnar eru Eva Bjarnadóttir og Eygló Árnadóttir.
Í skýrslunni segir að það sé þekkt að í efnahagskreppum minni launamunur kynjanna. Í skýrslunni er m.a. vísað til launakönnunar VR en árið 2010 og 2009 mældist launamunur kynjanna 10,1%, en árið 2008 var þessi munur 12,3% og 11,6% árið 2007.
Kyngreindar upplýsingar um vanskil lána og leigu takmarkast við einstætt, barnlaust fólk. Hlutfall einstæðra barnlausra kvenna í vanskilum með lán eða leigu hefur hækkað eftir að kreppan skall á. Einstæðir barnlausir karlar eru þó áfram mun fleiri í vanskilum en konur, eða í 74% tilvika árið 2010. Byrðar húsnæðiskostnaðar og lána hafa þyngst mikið hjá einstæðum barnlausum konum. Fram til 2009 höfðu karlar verið í meirihluta en árið 2010 hafði kynjahlutfallið jafnast.
Konur eru í meirihluta þeirra sem telja sig ekki geta mætt óvæntum útgjöldum eða eiga erfitt með að ná endum saman. Rúmlega 50% einstæðra barnlausra kvenna eru í þeirri stöðu á móti 40% karla.