Nýjar leiðir í fangelsismálum

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Brynjar Gauti

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir fangelsismálin öll í skoðun en handfast sé að verið sé að ráðast í byggingu á nýju fangelsi. Mikið framboð sé á ýmiss konar húsnæði undir fangelsi en einnig séu skoðaðar aðrar lausnir.

Páll Winkel fangelsismálastjóri gagnrýnir harkalega í blaðinu í dag hugmyndir um að nýju fangelsi verði fundinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Verði t.d. gamlar vinnubúðir Alcoa á Reyðarfirði nýttar sem fangelsi muni verða brotinn réttur á föngum, sem flestir eru frá suðvesturhorninu, með því að láta þá afplána langt frá heimili sínu.

„Ég er eindregið á þeirri skoðun að við eigum að hafa eins fátt fólk og kostur er lokað inni í fangelsum," segir Ögmundur. „Þar eiga að vera þeir sem eru hættulegir umhverfi sínu en aðrir eiga að búa við takmörkun á ferðafrelsi. Og síðan viljum við nýta í ríkari mæli afplánun sem tengist samfélagsþjónustu. Það breytir því ekki að við þurfum að hafa fangelsi til staðar en þetta held ég að verði meginlínurnar í framtíðinni."

Hann segist að sjálfsögðu hlusta á röksemdir Páls og einnig röksemdir fangavarðafélagsins. Ráðherra segist aðspurður mjög hlynntur því að notað sé rafrænt eftirlit með föngum sem fái þá að vera utan múranna en hægt að fylgjast með ferðum þeirra vegna rafrænna ökklabanda sem þeir bera. Þessi tilhögun er nú reynd í Bretlandi. Þá er gert minna af því að læsa fólk inni og kostnaðurinn mun minni fyrir skattborgarana, segir ráðherra.

„Ég vil ekki á þessu stigi vera með mjög afgerandi yfirlýsingar um einstaka valkosti. Við höfum tekið vel í að hitta þá sem eru með tillögur og hugmyndir. Okkur ber að huga að lausnum sem gera allt í senn, tryggja mannréttindi fanga að fullu, tryggja stöðu allra sem gæta fanga eða reka fangelsi og að sjálfsögðu horfum við einnig til kostnaðarins. En stutt er í að fram komi frumvarp sem tekur á þessum málum."

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert