Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði segja að ný skýrsla Capacent um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sýni svart á hvítu að miðað við rekstur síðustu ára sé bærinn ekki að standa undir skuldbindingum sínum. Þetta kemur fram í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi bæjarstjórnar, sem fór fram á miðvikudag.
Í skýrslu Capacent segir m.a. að ef „ekki er tekið tillit til endurfjármögnunar lána í samræmi við áætlanir bæjarins verður greiðslubyrði lána næstum þrefaldur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) árin 2011 og 2012. Bærinn getur ekki staðið undir þeirri greiðslubyrði. Endurfjármögnun lána er því nauðsynleg vegna afborgana á öðrum ársfjórðungi ársins 2011 og á fyrsta ársfjórðungi ársins 2012.“
Í bókun bæjarfulltrúanna segir: „Skýrslan sýnir einnig að skilyrði þess að takast megi að koma böndum á fjármál bæjarfélagsins sé að áætlanir áranna 2011 til 2014 standist og gott betur. Sjálfstæðismenn hafa lengi varað við þeirri þróun sem verið hefur í fjármálum sveitarfélagsins og lýsa fullri ábyrgð á henni á meirihluta Samfylkingar og VG. Ljóst er að taka hefði þurft fyrr á og hagræða fyrr í rekstri sveitarfélagsins.“
Þar segir ennfremur að í skýrslunni komi einnig skýrt fram að skuldsetning hafi verið verulega umfram greiðslugetu strax uppsveifluárin 2006 og 2007 og ekki stefni í að bærinn standi ekki undir skuldum samkvæmt skuldaþolsprófi í skýrslu Capacent fyrr en árið 2012. Jafnframt komi fram að skuldsetning verði ekki komin undir 250% viðmið fyrr en 2012. Þetta sé þó allt háð því að áætlanir standist fyrir næstu ár.