Ársþing Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar lítur svo á að treysta beri ráðningarferli stjórnsýslunnar þannig að tryggt sé að ráðningar falli að lögum. Hreyfingin lýsir jafnframt yfir stuðningi við forsætisráðherra við að gera þær breytingar sem til þarf.
Í ályktun Kvennahreyfingarinnar segir að í yfirstandandi niðurskurði í opinberri þjónustu hjá ríki og sveitarfélögum sé brýnt að standa vörð um atvinnu kvenna. „Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur lyft grettistaki á mörgum sviðum samfélagsins og Jóhanna verið ein ötulasta baráttukona fyrir jafnrétti og mannréttindum Íslendinga í áratugi.“
Fjallað er um nýlegan úrskurð þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherra hefði ekki virt jafnréttislög. „Jafnaðarkonur hafa verið í fararbroddi framfara í jafnréttismálum á Íslandi um árabil og er ábyrgð þeirra rík. Nýlegur úrskurður kærunefndar jafnréttismála er alvarlegur fyrir stjórnsýsluna og flokk sem kennir sig við kvenfrelsi. Við honum þarf að bregðast, með viðeigandi hætti. Kvennahreyfing Samfylkingarinnar lítur svo á að treysta beri ráðningarferli stjórnsýslunnar þannig að tryggt sé að ráðningar falli að lögum, og lýsir yfir stuðningi við forsætisráðherra við að gera þær breytingar sem til þarf.“