Veitingarekstur við Austurvöll virðist ganga brösulega þessi misserin. Hafa að minnsta kosti þrír staðir þar verið teknir til gjaldþrotaskipta frá því í nóvember í fyrra.
Hinn 16. mars úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að Eignarhaldsfélag Miðborgar, sem átti Kaffi París, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Að sögn Grétars Berndsens, veitingastjóra staðarins, var reksturinn keyptur af nýju félagi, LIDUS-veitingum, um mitt síðasta ár.
Þá voru Veitingahúsið Austurvelli Reykjavík, sem rak Óðal, og Nasaveitingar, sem ráku skemmtistaðinn Nasa, einnig tekin til gjaldþrotaskipta í nóvember og janúar.
Það er ekki bara við Austurvöll sem veitingarekstur hefur gengið erfiðlega. Hinn 16. febrúar voru skemmtistaðirnir Hverfisbarinn við Hverfisgötu og Glaumbar við Tryggvagötu báðir teknir til gjaldþrotaskipta.