„Ég nenni varla að taka þátt í þessari umræðu lengur. Það þarf að standa faglega að þessu og byggja sérhannað fangelsi. Ekki taka í notkun gamla ísbrjóta, gáma eða annað húsnæði langt frá höfuðborgarsvæðinu.“
Þetta segir Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, í Morgunblaðinu í dag um þá hugmynd að nota Sjafnarhúsið á Akureyri sem fangelsi.
Í nýlegu minnisblaði til innanríkisráðherra, vegna hugmyndar um fangelsi í gámabyggð í Reyðarfirði, kemur skýrt fram að Páll er algjörlega andvígur slíkum hugmyndum. Slíkt yrði afar óhagkvæmt og bryti gegn mannréttindum. Hann bendir m.a. á að fangar fái sumir börn sín reglulega í heimsókn og það yrði tímafrekt og dýrt fyrir barnaverndaryfirvöld að flytja börn út á land til að hitta foreldra sína undir eftirliti. Fangar verði ekki vistaðir sem búpeningur.