Stjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs samþykkti í ályktun í dag þar sem fordæmdar eru allar aðgerðir í Líbíu sem ekki eru í samræmi við samþykkt Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
„ Umboð Sameinuðu þjóðanna til íhlutunar lýtur aðeins að flugbanni og aðgerðum til að verja óbreytta borgara. Það er staðföst skoðun stjórnar VG að stríðsrekstur leysi engan vanda, heldur auki aðeins neyð og vanlíðan þeirra þjóða sem í hlut eiga. Íslendingar eiga aldrei að taka þátt í eða styðja aðgerðir af þessum toga, heldur stuðla að friðarumleitunum með öðrum hætti. Stjórn VG lýsir stuðningi við baráttu almennra borgara í Arabalöndum fyrir lýðræði og mannréttindum og gegn kúgun og ánauð,“ segir í ályktuninni.