Bátur sökk við Akurey

Bátur sökk rétt norður af Akurey síðdegis í dag. Tveir menn sem voru um borð náðu að láta vita af ástandinu áður en báturinn sökk. Björgunarskip náði að bjarga mönnunum og koma með þá til Reykjavíkur. Þeir lentu báðir í sjónum.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir að ekki hafi mátti tæpara standa. Samkvæmt upplýsingu mbl.is lentu mennirnir báðir í sjónum. Annar var kominn í flotgalla, en hinn var ekki búinn að klæða sig í hann að fullu áður en hann fór í sjóinn. Maðurinn var því nokkuð kaldur þegar honum var bjargað.

Beiðni um aðstoð barst klukkan 17:10 og voru þá björgunarskip og bátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar send á staðinn. Tuttugu mínútum síðar voru skipbrotsmennirnir komnir um borð í björgunarskip. Þá maraði báturinn í hálfu kafi og aðeins stefnið stóð uppúr. Það var björgunarskip frá Ársæli á Seltjarnarnesi sem bjargaði mönnunum. Þeir voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.

Ársæll sendi tvo báta af stað til að bjarga mönnum. Svo vildi til að björgunarsveitarmenn í Ársæli höfðu verið á æfingu í morgun og voru því fljótir að gera sig klára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert