Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, samþykkti það með fyrirvörum að frumvarp til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands yrði afgreitt af ríkisstjórn í gær og sent til meðhöndlunar í þingflokkum. Frumvarpið mun hafa ýmsar veigamiklar breytingar í för með sér, verði það að lögum óbreytt.
Á meðal breytinganna sem lagðar eru til er það að hætt verði að telja sérstaklega upp ráðuneytin í lögum um Stjórnarráðið. Þess í stað yrði aðeins kveðið á um hámarksfjölda þeirra, og stjórnvöld útfæri það á hverjum tíma hvaða ráðuneyti skuli starfrækt. Þá er það lagt til að á ráðherrum hvíli sú skylda að leitast við að samhæfa stefnu sína og aðgerðir þegar skörun á sér stað.
Næðu þessar breytingar fram að gang yrði stjórnvöldum gert auðveldara að ráðast í breytingar líkt og boðaðar hafa verið um sameiningu atvinnuvegaráðuneyta. Ekki hefur verið einhugur um slíkar breytingar í ríkisstjórninni og raunar hafa áformin vorið uppspretta nokkur deilna.
Spurður að því hvort ósátt hafi verið um afgreiðslu málsins á fundi ríkisstjórnarinnar sagði Ögmundur einfaldlega að sú ákvörðun hafi verið tekin að afgreiða málið. „En þarna eru uppi ýmsir fyrirvarar sem ég hafði um málið. Ég styð það hins vegar að það fari til umfjöllunar í þingflokkunum.“
Ögmundur vildi ekki tjá sig efnislega um þá fyrirvara.