„Það mátti ekki á tæpara standa,“ sagði Kristinn Guðbrandsson, skipstjóri á björgunarbátnum Höllu Jónsdóttur, sem bjargaði tveimur mönnum af bát sem sökk skammt norður af Akurey í dag. Það voru menn á tveimur bátum frá björgunarsveitinni Ársæli sem björguðu mönnunum.
Björgunarsveitarmenn í Ársæli voru á stórri björgunarsveitaræfingu í dag. Þeir voru nýbúnir að ganga frá bátunum og voru að grilla hamborgara þegar þeir fengu boð um að báturinn væri að sökkva.
„Þegar við komum á staðinn var báturinn að sökkva og aðeins stefnið stóð upp úr. Við sáum tvo menn fljóta í flotgöllum og fórum strax í það að bjarga þeim um borð. Annar mannanna var orðinn mjög kaldur því að honum hafði ekki gefist tími til að klæða sig í gallann áður en báturinn sökk,“ sagði Kristinn.
Kristinn sagði ljóst að báturinn hefði farið mjög hratt niður.
Björgunarsveitarmenn frá Ársæli fóru á tveimur bátum til að bjarga mönnunum. Einnig voru björgunarsveitir í Kópavogi, Garðabæ og Reykjavík settar í viðbragaðsstöðu.
Kristinn sagði að mennirnir, sem voru á miðjum aldri, hefðu sagt sér að þeir teldu að þeir hefðu verið um 15-20 mínútur í sjónum. Hann sagði að sjórinn væri afar kaldur á þessum árstíma, aðeins um 2 gráður, og hann sagði að maðurinn sem þurfti að klæða sig í gallann í sjónum hefði ekki þolað langa vist þar.