Mótmæla skerðingum á kjörum aldraðra

mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Aðalfundur Félags eldri borgara í Hafnarfirði samþykkti ályktun þar sem krafist er að stjórnvöld standi vörð um kjör eldri borgara. Í ályktuninni segir að gerð hafi verið aðför að kjörum aldraðra með skerðingum sem gripið var til árið 2009 og ekki hafa enn verið bættar.

„Fundurinn mótmælir þeirri miklu kjaraskerðingu sem framkvæmdar voru 1. janúar og 1. júlí 2009, sem var óskiljanleg aðför að kjörum eldri borgara. Einnig fordæmum við allar þær hækkanir sem orðið hafa á framfærslu og rekstri heimilis. Þá fordæmum við að hækkanir á innlendum matvælum eru miklu meiri en gengislækkun krónunnar, innlend græðgin er söm við sig og algjörlega óheft,“ segir m.a. í ályktun fundarins.

Þess er krafist að tekjutengingar og frítekjumörk verði aftur sem ákveðið var 2007 af þáverandi félagsmálaráðherra og að greiðslur frá TR til eldri borgara hækki um 16%. „Það er óásættanlegt að á meðan lágmarkslaun í landinu hafa hækkað um 16% hafa greiðslur TR til eldri borgara staðið í stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert