Tekin með e-töflur og LSD

Parið var með 36.000 skammta af e-töflum.
Parið var með 36.000 skammta af e-töflum. mbl.is/Kristinn

Karl og kona á þrítugsaldri, með um 36 þúsund skammta af e-töflum í farangrinum, voru stöðvuð af tollvörðum á Keflavíkurflugvelli aðfaranótt 23. mars síðastliðins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru þau einnig með mikið magn af LSD, vel yfir 4.000 skammta.

Þetta er eitt mesta smygl á e-töflum hingað til lands sem um getur og aldrei áður hefur verið lagt hald á jafnmarga LSD-skammta í einu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru fíkniefnin falin í fölskum töskubotni á stórri ferðatösku.

Voru þau bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness, karlmaðurinn í tvær vikur eða til 6. apríl nk. og konan í viku eða til 30. mars nk.

Fólkið, sem er íslenskt, var að koma með leiguflugi frá Spáni. Hafði það dvalið í viku á Las Palmas á Kanaríeyjum. Flestir farþeganna, jafnvel allir fyrir utan fólkið sem var handtekið, voru á miðjum aldri eða þaðan af eldri og er hugsanlegt að það hafi verið meðal þess sem vakti grunsemdir tollvarða og lögreglu.

Að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurnesjum, er rannsókn málsins í fullum gangi og beinist m.a. að því hvort fleiri standi að innflutningnum.

Bæði hafa þau komið við sögu lögreglu áður. Karlmaðurinn mun eiga sér töluverða afbrotasögu, m.a. fyrir fíkniefnabrot, en konan fyrir minniháttar brot. Karlmaðurinn fæddist árið 1988 en konan ári síðar.

Tugir milljóna á götunni

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er götuverðmæti e-taflnanna talið vera yfir 70 milljónir króna.

E-tafla er efni sem líkist amfetamíni, en hefur einnig ofskynjanir í för með sér svipað og LSD. Íslenskir dómstólar hafa tekið hart á þeim sem flytja inn þessi efni.

Með stærstu sendingum

Árið 2007 var lagt hald á 140 kg af e-töfludufti sem hefði dugað í tugþúsundir e-taflna. Málið sem kom upp í vikunni er næststærsta e-töflumálið. Árið 2001 var reyndar lagt hald á 67.000 e-töflur en sú sending var á leið til Bandaríkjanna. Mesta magn LSD sem fundist hefur í einu lagi hér á landi er 4.000 skammtar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert