Vissi ekki af auglýsingunni

Úr auglýsingunni sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Úr auglýsingunni sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki hafa vitað að til stæði að hann birtist í auglýsingu samtakanna Áfram, sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hreyfingin berst sem kunnugt er fyrir því að Icesave-lögin verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ég vissi hvorki af þessu né gaf samþykki mitt,“ segir Tryggvi. Í auglýsingunni er vitnað í ræðu hans á Alþingi þann 16. febrúar, en hann greiddi frumvarpi um ríkisábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins sem kunnugt er atkvæði sitt.

„Málstaðurinn er góður og samkvæmt sannfæringu minni,“ segir Tryggvi um auglýsinguna. „En ég skal ekkert segja um hvað ég hefði gert ef ég hefði verið beðinn um að gera þetta. Þetta var gert án minnar vitundar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert