86% vilja fara í mál við Breta

Gordon Brown tók ákvörðun um að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi …
Gordon Brown tók ákvörðun um að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi í október 2008. Reuters

Um 86% landsmanna vilja draga Breta fyrir dóm vegna beitingar hryðjuverklaga. Þetta eru niðurstöður viðhorfskönnunar sem MMR gerði fyrir þjóðmálafélagið Andríki dagana 8. – 11. mars sl.

Í könnuninni var spurt: Telur þú að íslensk stjórnvöld hefðu átt að stefna breskum stjórnvöldum fyrir dóm vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn Íslendingum í nóvember 2008? Af þeim sem afstöðu tóku svöruðu 86,5% já. Nei sögðu 13,5%. Ekki er marktækur munur á afstöðu kynja. Mikill meirihluti í öllum aldurs-, menntunar-, tekju- og starfshópum telur að draga hefði átt Breta fyrir dóm vegna beitingar hryðjuverkalaganna.

Úrtak var 902 einstaklingar á aldrinum 18 – 67 ára. Afstöðu tóku 72,7%.

Þess má geta að fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar frá Gunnari Braga Sveinssyni og 13 öðrum þingmönnum um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka