„Þetta er tæpast áætlun um afnám haftanna. Þetta er ákvörðun um framlengingu þeirra,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins um stefnu stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta árið 2015. Hann segir ábyrgðina liggja hjá ríkisstjórn.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á föstudag að stefnt sé að því að afnema gjaldeyrishöft árið 2015. Ráðherrann mun leggja fram tillögu á Alþingi í næstu viku til þess að fá heimild til að fá að framlengja höftin til 2015.
„Mér finnst alveg sérstaklega dapurlegt að það komi ekki metnaðarfyllri áætlun en þetta og það er mjög alvarlegt mál vegna þeirrar sóunar sem mun eiga sér stað í skugga haftanna. Ég tel að við hefðum átt að vera komin mun lengra á veg með að afnema þau. Það verður ekki gert í einni hendingu en með markvissum aðgerðum og einbeittum ásetningi um að gera það þá er hægt að gera þetta á mun skemmri tíma, jafnvel á tólf til tuttugu og fjórum mánuðum,“ segir Bjarni.
„Allt á sömu bókina lært“
Bjarni segir að honum finnist því sem næst allar ástæðurnar sem nefndar eru fyrir framlengingu á gjaldeyrishöftunum vera mál sem ríkisstjórnin hafi borið ábyrgð á að leysa síðastliðin tvö ár.
„Það eru nefnd til sögunnar mál eins og skuldavandi heimila og fyrirtækja. Þetta eru mál sem hafa tekið allt of langan tíma. Það er nefnt að hér séu margir erlendir aðilar sem eigi krónur í íslenska hagkerfinu. Við höfum bent á leiðir til að leysa þetta allt frá 2009. Þetta hefur verið að gerast allt of hægt og í raun og veru er að meira eða minna leyti sami vandi enn til staðar núna á árinu 2011 og var þá. Það hefur verið fyrir séð núna í tvö og hálft ár að það þyrfti að grípa til ráðstafana til að létta á þeim þrýstingi á krónunni sem er vegna þessa en mér sýnist að því sem næst ekkert hafi verið gert.“
„Auðvitað er það ekki að hjálpa okkur að áætlanir um hagvöxt á yfirstandandi ári virðast ekki ætla að ganga upp og þar af leiðandi verður hallarekstur ríkissjóðs meiri en að var stefnt. Við þurfum að koma ríkisfjármálum aftur í jafnvægi til þess að geta með trúverðugum hætti losað um höftin. Þannig að þetta er allt á sömu bókina lært.“