Unnið hefur verið að dýpkun Landeyjahafnar alla helgina. Eru aðstæður til þess afar góðar þessa stundina, að sögn Stefáns Stefánssonar hjá Íslenska gámafélaginu, sem gerir dýpkunarskipið Skandia út.
„Þetta hefur gengið vel í dag. Þeir hafa verið að dæla þarna í dag og það hefur gengið vel, enda hefur veðrið boðið upp á það. Það hafa verið, þannig lagað, kjöraðstæður,“ segir Stefán. „Það er búið að dæla alla helgina en gangurinn fer eftir því hvernig ölduhæðin er og brimið. Það hefur verið nokkuð hagstætt í dag til þess að geta unnið þarna.“
Stefán kveðst ekki geta spáð fyrir um hvenær verkinu muni ljúka, það fari eftir því hversu lengi veðrið helst gott. „Það verður haldið áfram á meðan veður leyfir. Það er keyrt allan sólarhringinn.“