Grjót féll á bíl

Grjótið sem féll á bílinn.
Grjótið sem féll á bílinn. mbl.is/lögreglan

Stórt grjót féll á bíl undir Ólafsvíkurenni í nótt. Grjótið lenti á hægra framhjóli bílsins, braut felguna og eyðilagði dekkið. „Þetta var skelfilegt,“ sagði Guðbjörn Ásgeirsson, sem ók bílnum.

Óhappið átti sér stað um kl. 1:30 í nótt. Bíllinn sem fékk steininn á sig er stór amerískur pallbíll. „Ég sá steininn ekki koma og það var engin leið að verjast þessu. Það kostnaði talsverð átök að halda bílnum á veginum. Hann kastaðist til og fór yfir á hinn vegarhelminginn,“ sagði Guðbjörn.

Stór gryfja er við veginn sem á að taka við grjóti sem fellur úr hlíðinni. Guðbjörn sagði að steinninn hefði farið í gryfjuna og skoppað síðan upp á veginn á bílinn. Hann segist ekki mega til þess hugsa hefði steinninn lent á miðjum bílnum. „Það má kannski segja að maður hafi verið heppinn í óheppninni.“

Arnar G. Magnússon, lögreglumaður í Ólafsvík, sagði að tveir karlmenn hefðu náð að velta steininum af veginum en talið er að hann hafi verið nærri 300 kíló. Hann sagði algengt að möl og smærri steinar kæmu niður hlíðina, en ekki væri algengt að svona stór steinn félli á veginn. Nokkurt bil er frá hlíðinni og að veginum.

Samkvæmt upplýsingum vegfaranda féll eitthvað af smásteinum niður hlíðina í nótt eftir að óhappið átti sér stað. Arnar sagði að leysingar væru á Snæfellsnesi og við þær aðstæður skapaðist hætta á grjóthruni í Ólafsvíkurenni og undir Búlandshöfða. Vegagerðinni var tilkynnt um óhappið.

Dekkið er illa farið eftir steininn.
Dekkið er illa farið eftir steininn. mbl.is/lögreglan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert