Riaan Manser og Dan Skinstad lögðu í morgun af stað á tveggja manna kajak frá Húsavík, en þeir ætla sér að róa hringinn í kringum landið. Aldrei áður hefur verið gerð tilraun til hringróðurs um Ísland á þessum árstíma, þegar veður eru válynd og sjórinn jökulkaldur.
Manser öðlaðist töluverða frægð þegar hann varð fyrstur til að hjóla hringinn í kringum Afríku en þetta 36.500 km ferðalag tók hann tvö ár. Manser varð einnig fyrstur til að róa einsamall á kajak í kringum Madagaskar, fjórðu stærstu eyju heims, og tók róðurinn um 11 mánuði.
Ágætt veður var á Húsavík í morgun þegar Manser og Skinstad lögðu af stað. Hópur Húsvíkinga fylgdist með félögunum og óskaði þeim velfarnaðar. Þeir félagar hafa verið á Húsavík síðustu daga og undirbúið sig undir komandi átök.
Manser sagði að hann vildi engu svara um hvað hann reiknað með að ferðin tæki langan tíma. Hann sagðist ekki vera kominn til Íslands til að slá hraðamet. Ferðafélagi hans, Skinstad, er með milda hreyfilömum og er hreyfigeta hans skert. „Við róum fáa kílómetra á dag til að byrja með, svona þegar við erum að læra á aðstæður.“
Ræðararnir hafa ekki fylgdarbát til að hafa auga með þeim og mætti því orða það svo að þeir séu einir á báti. Hins vegar eru þeir þó búnir sjálfvirku staðsetningartæki, og þannig hægt að fylgjast með ferðum þeirra á þessari síðu.