Áætlun um fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur verður kynnt á stjórnarfundi fyrirtækisins á morgun. Fram kom í fréttum Útvarpsins, að borgaryfirvöld hafi rætt möguleika á því að leggja Orkuveitunni til milljarða króna úr sérstökum sjóði, til að styrkja reksturinn.
Borgarráð ræddi málið á aukafundi í dag. Fram hefur komið, að ekki er útlit fyrir að fyrirtækinu gangi vel að fjármagna sig á erlendum mörkuðum. Norræni fjárfestingarbankinn telur þannig ekki koma til greina að veita Orkuveitu Reykjavíkur lán miðað við núverandi lánshæfismatseinkun fyrirtækisins.