„Viðræðurnar eru í ágætum farvegi og ég vænti þess að við náum lendingu núna í vikunni,“ segir Vilhjámur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Fulltrúar samtaka vinnumarkaðarins hafa fundað stíft að undanförnu um gerð nýrra kjarasamninga og nú telja menn sig hafa landsýn í málinu.
Ekki ber mikið í milli hvað varðar launaþáttinn en gengið er út frá því að launþegar fái væna eingreiðslu strax auk annarra hækkana á síðari stigum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að lagt er upp með að kjarasamningarnir gildi frá 15. júní næstkomandi og fram á árið 2014. Náist samkomulag í vikunni yrði það nokkurs konar aðfarasamningur, en gildistaka um miðjan júní er undirorpin því að samkomulag náist við ríkisvaldið um ýmis mál. Ef ekki gildi samningurinn aðeins til hausts.
Þau mál sem deilt er um milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins eru krafa um lækkun tryggingagjalds á fyrirtæki, breytingar á skattakerfinu, átak í atvinnumálum og jöfnun lífeyrisréttinda starfsmanna ríkisins og þeirra sem á almenna markaðnum vinna. Einnig að lausn fáist í mál sem snúa að fiskveiðistjórnun.