Tvískinnungsháttur Vinstri grænna

Bjarni Benediktsson á þingfundi.
Bjarni Benediktsson á þingfundi. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir afstöðu Vinstri grænna til aðkomu NATO að hernaðaraðgerðum í Líbíu einkennast af tvískinnungshætti. Málefni Líbíu voru rædd á aukafundi utanríkismálanefndar nú í kvöld.

Bjarni óskaði sjálfur eftir fundinum í kjölfar umræðna á þingi í dag, en þar kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, að flokkur hans styddi það ekki að NATO tæki við stjórn aðgerða.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, er staddur í London en tók þátt í fundinum símleiðis. Hann sagðist hafa litið svo á að hann hefði óskorað umboð til þess að lýsa yfir stuðningi við flutninginn til NATO.

Bjarni segir andstöðu Vinstri grænna óskiljanlega í ljósi þessa, og jafnframt þess að ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hafi falið í sér að gripið yrði til árásarhernaðar, þó ekki væri nema bara til þess að eyðileggja varnir Líbíumanna. Öðruvísi hefði ekki verið hægt að koma flugbanninu á.

Össur sagði í samtali við Morgunblaðið að allar aðgerðir gagnvart Líbíu byggi á ályktun Öryggisráðsins sem hafi verið ræddar og samþykktar í ríkisstjórn Íslands.

Bjarni segir Vinstri græna verða að horfast í augu við ábyrgð sína sem stjórnarflokks. Ekki sé hægt að fría sig ábyrgð af ákvörðunum sem ríkisstjórnin hafi þegar tekið.

Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun, þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert