Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að skattar á eldsneyti verði lækkaðir umtalsvert til áramóta.
Leggja þingmennirnir til, að krónutöluskattar á eldsneyti verði lækkaðir tímabundið, um 19,86 krónur á lítra af bensíni og 19,88 krónur á lítra af dísilolíu. Þetta muni leiða beint til hækkunar ráðstöfunartekna, einkaneyslu og hagvaxtar. Þá muni vísitala neysluverðs lækka um 0,8-0,9% sem leiði beint til lækkunar vísitölu neysluverðs sem aftur lækkar höfuðstól verðtryggðra lána heimila og fyrirtækja og afborganir af þeim.
„Áhrif aðgerðarinnar bein og óbein væru veruleg og mundu leiða til jákvæðra áhrifa á hagvöxt. Framundan er mesti álagstími ferðaiðnaðarins og lækkun eldsneytis mundi virka eins og vítamínsprauta á greinina, hafa jákvæð áhrif á landsbyggðina sem og landið allt og styrkja innviði greinarinnar," segir í greinargerð með frumvarpinu.