Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi að Vinstri grænir styddu ekki að NATO tæki við stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu enda hefðu þeir ekki verið spurðir. Þá hefði ríkisstjórnin ekki fjallað um málið.
„Við höfum almennt ekki verið fylgjandi því að NATO sé í einhverju uppsópi eftir árásir einstakra herja. Það eina sem rætt hefur verið í ríkisstjórn er ályktun öryggisráðsins sjálfs, og það er rétt sem komið hefur fram, að við töldum hana eftir atvikum það skásta, sem hægt væri að gera enda haldi menn sig strangt innan þeirra heimilda sem þar er talið um: flugbann og aðgerðir til að verja líf óbreyttra borgara," sagði Steingrímur.
Annað mál væri ef einstakir herir eða NATO drægist inn í langvinn átök á þessu svæði. Þannig að við áskiljum okkur fullan rétt til að gagnrýna það sem við teljum að fari þar út fyrir," sagði Steingrímur.
Hann var að svara fyrirspurn frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um hvort Vinstri grænir styddu ákvörðun NATO frá í gær um að bandalagið taki yfir stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu.
Ragnheiður Elín sagði, að henni þætti svar Steingríms athyglisvert vegna þess að hún vissi ekki til þess að Ísland hefði gert neina fyrirvara við ákvörðun Atlantshafsráðsins í gær og þannig beitt neitunarvaldi.
Steingrímur sagðist ekki hafa upplýsingar um hvernig staðið var að málinu hjá NATO. Sjálfur hefði hann verið í Færeyjum og ekki vitað af niðurstöðunni fyrr en í dag og hefði engar upplýsingar um hvernig þetta fór fram.
„Persónulega þykir mér afar ólíklegt að öll NATO-ríki hafi stutt með pósitívum hætti þessar aðgerðir," sagði Steingrímur. Nefndi hann m.a. Þjóðverja og Tyrki „og ég vona svo sannarlega að Ísland hafi verið í þeim hópi," sagði Steingrímur.
Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist telja mikilvægt að utanríkismálanefnd þingsins komi saman hið fyrsta í ljósi þess að formaður annars stjórnarflokksins hafi upplýst að hann hafi engar upplýsingar um það hvernig staðið var að ráðstöfun atkvæðis Íslendinga í Norður-Atlantshafsráðinu.
Sagði Bjarni að það sætti mikilli furðu að málið hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn.