Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, fékk í gær afrit af tölvupóstsamskiptum Geirs H. Haarde meðan hann var forsætisráðherra. Um er að ræða um 40 þúsund skjöl og minnisblöð.
„Skjölin eru samtals um 40 þúsund, þar af eru um 20 þúsund tölvupóstar. Inni í þessu eru líka mikið af minnispunktum,“ sagði Sigríður.
Saksóknari krafðist að fá afhent öll tölvusamskipti Geirs á þeim tíma sem hann var forsætisráðherra, þ.e. frá 15. júní 2006 til 1. febrúar 2009. Landsdómur féllst á kröfuna og fékk saksóknari afrit af gögnunum í gær.
Sigríður sagði að öll skjöl yrðu opnuð og það tekið til skoðunar sem talið væri að skipti máli við rannsókn málsins. „Þetta verður talsvert mikið verk. Við munum skipta þessu á milli okkar og halda okkur fast að verki.“
Sigríður sagði hún stefndi að því að gefa út ákæruskjal fyrir páska, sem yrði lagt fyrir Landsdóm ásamt gögnum málsins. Þá er gefin út formleg stefna, síðan þurfa að líða þrjár vikur þar til málið er þingfest.
Sigríður sagðist hafa nokkrar áhyggjur af því að Alþingi væri ekki búið að afgreiða frumvarp til breytinga á lögum um landsdóm, en frumvarpið felur m.a. í sér að umboð þeirra sem nú skipa landsdóm verði framlengt. Kjörtímabil þeirra fulltrúa sem kjörnir eru í dóminn rennur út 11. maí nk. og ef umboð þeirra verður ekki framlengt þarf Alþingi að kjósa nýja menn í dóminn. Sigríður sagði að það hefði tæplega neinn tilgang að þingfesta málið gegn Geir strax ef fyrir lægi að kjósa þyrfti nýja menn í dóminn.
Frumvarpið er sex greinar og er ein þeirra þegar orðin úrelt því að búið er að kveða upp úr um þá óvissu sem var um rannsóknarúrskurði.
Sigríður sagðist hafa sent fyrirspurn til Alþingis um málið. Hún sagði að fyrst Alþingi hefði tekið ákvörðun um að ákæra Geir hlyti að vera meirihluti á Alþingi fyrir því að sníða af vankanta á lögunum.