4907 börn fæddust árið 2010

Rúmlega 318 þúsund manns bjuggu á Íslandi um áramótin.
Rúmlega 318 þúsund manns bjuggu á Íslandi um áramótin. mbl.is/Kristinn

Á síðasta ári fæddust 4907 börn þar af 2523 drengir og 2.384 stúlkur. Þetta eru
nokkuð færri börn en á árinu 2009 sem var metár, en þá fæddust 5026 börn.

Þessar fæðingartölur árinu 2010 jafngilda því að hver kona fæði 2,197 börn á ævi
sinni. Jafnan er miðað við að þetta hlutfall þurfi að vera rúmlega 2 börn, þ.e. að
minnsta kosti ein stúlka, til þess að þjóðinni fjölgi miðað við óbreytta dánartíðni og
jafnvægi í flutningsjöfnuði.

Þetta kemur fram í nýju riti Hagstofunnar þar sem fjallað er um mannfjöldaþróun hér á landi. Hinn 1. janúar 2011 var íbúafjöldi á Íslandi 318.452. Íbúum landsins hafði þá fjölgað um 0,3% frá sama tíma ári áður eða um 822 einstaklinga.

Á árinu 2010 létust 2017 manns sem búsettir voru á Íslandi, 1063 karlar og 954
konur. Dánartíðni á hverja 1000 íbúa var 6,3 dánir árið 2010 og hefur verið 6,1 til
6,3 prómill allan áratuginn.

Árið 2010 gátu nýfæddir drengir búist við því að verða 79,5 ára en stúlkur 83,5 ára. Árin 2001–2005 gátu drengir búist við að verða 78,9 ára, en 79,4 þegar meðaltal áranna 2006–2010 er skoðað. Árin 2001–2005 var meðalævilengd stúlkna við fæðingu 82,8 ár en var komin í 83,1 ár þegar litið er til síðustu fimm ára.

Á síðasta ári fluttu 7759 einstaklingar til útlanda en 5625 fluttu til landsins. Brottfluttir umfram aðflutta voru því 2134. 

Hinn 1. janúar 2011 áttu 42.230 einstaklingar (13,3% landsmanna) annað foreldri eða báða af erlendu bergi. Af þeim áttu 28.275 einstaklingar báða foreldra af erlendu bergi, en þeim hópi tilheyra innflytjendur og önnur kynslóð innflytjenda. Samtals voru innflytjendur og önnur kynslóð innflytjenda 8,9% landsmanna í ársbyrjun 2011.

Mannfjöldaþróun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert