Ætla að fjármagna OR til 2016

Frá stjórnarfundi Orkuveitunnar fyrr í dag.
Frá stjórnarfundi Orkuveitunnar fyrr í dag. mbl.is/RAX

Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur ætla að fjármagna fyrirtækið til loka ársins 2016 án þess að lánastofnanir komi þar við sögu. Á fundi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var samþykkt aðgerðaráætlun fyrir fyrirtækið í fimm liðum.

Aðgerðaráætlunin miðar að því að skjóta tryggari stoðum undir rekstur og starfsemi fyrirtækisins til loka ársins 2016 við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á lánamörkuðum. Fjárþörf OR er áætluð 50 milljarðar króna á árunum 2011-2016 og það bil verður brúað með því að fresta nýfjárfestingum og viðhaldsverkefnum í dreifikerfi, draga enn frekar úr rekstrarkostnaði, selja eignir, hækka fráveitugjald og gjald fyrir heitt vatn. Þá mun OR fá víkjandi lán hjá eigendum sínum þegar í stað og þannig verður komið í veg fyrir sjóðþurrð sem ella stefnir í hjá fyrirtækinu fyrir mitt ár 2011.
 
Aðgerðaáætlunin hefur hlotið samþykki í byggðaráðum Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnanna.
 
Stjórn og stjórnendur OR kynntu margvíslegar ráðstafanir í ágúst 2010 til að tryggja starfsemi fyrirtækisins. Þær leiddu til uppsagna starfsfólks og fólu í sér hækkun gjaldskrár, rekstrarhagræðingu og sölu eigna sem ekki tilheyra kjarnastarfseminni.
 
Fyrir lá þá þegar að þessar ráðstafanir myndu ekki skila sér að fullu fyrr en liði á árið 2011 og að OR yrði jafnframt að njóta áfram fyrirgreiðslu á erlendum lánsfjármarkaði. Nú hefur hins vegar komið á daginn að áætlanir um erlenda lánsfjármögnun ganga ekki eftir og fyrirtækinu er um megn að fjármagna sig af eigin rammleik.
 
Stjórn og stjórnendur Orkuveitunnar kynntu eigendum, sveitarfélögunum þremur, þessa alvarlegu stöðu snemma árs 2011 og óskuðu samstarfs við þá um fjármögnun fyrirtækisins. Aðgerðaáætlunin er afrakstur þess samstarfs og miðar að því að tryggja rekstur fyrirtækisins til frambúðar og að OR geti staðið við skuldbindingar sínar með sem minnstum áhrifum á þjónustu fyrirtækisins.
 

Ráðstafanir í fimm meginþáttum

Eigendur OR ætla að fjármagna fyrirtækið til loka ársins 2016 án þess að lánastofnanir komi þar við sögu. Það eru sem sagt viðbrögð sveitarfélaganna við ástandi sem við blasir eftir að staðreynt var að fyrirtækið fékk ekki nauðsynlega lánafyrirgreiðslu. Sameiginleg niðurstaða eigendanna er að taka af allan vafa um að Orkuveitan geti staðið undir skyldum sínum gagnvart fólki og fyrirtækjum á veitusvæði sínu.
 
Hins vegar þarf mun meira til að koma en lán eigendanna til að tryggja rekstur Orkuveitunnar til frambúðar. Ráðstafanir í þeim efnum voru boðaðar í ágúst 2010, eins og fyrr er getið um, en nú hafa þær verið útfærðar enn frekar í fjórum meginþáttum og tímasettar. Víkjandi lán frá eigendum OR er síðan fimmti meginþáttur aðgerðaáætlunarinnar sem nú er kynnt.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka