ASÍ skipuleggi allsherjarverkfall

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA. mbl.is/Steinar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, leggur til að Alþýðusamband Íslands skipuleggi allsherjarverkfall í einn dag til að mótmæla því sem hann kallar ofbeldi Samtaka atvinnulífsins gagnvart íslenskum launþegum.

Í pistli sem Vilhjálmur skrifar á vef félagsins segir hann öllum ljóst að SA muni ekki ganga frá kjarasamningum fyrr en ágreiningur þeirra við stjórnvöld um sjávarútvegsmál verði til lykta leiddur. „Þetta ofbeldi bitnar fyrst og fremst á íslenskum launþegum sem nú hafa beðið eftir kjarabótum í fjóra mánuði og á þessari stundu bendir ekkert til að breyting verði þar á,“ skrifar Vilhjálmur.

Hann lýsir yfir fullkomnu vantrausti á forystu ASÍ við gerð nýs kjarasamnings. Verkalýðsfélag Akraness hafi dregið umboð sitt til baka því félagið hafi ekki sætt sig við það ofbeldi sem hafi verið fólgið í svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit hafi átt að taka til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.

„Hins vegar er staðan þannig að Samtök atvinnulífsins neita alfarið að ganga frá neinum kjarasamningi við félagið fyrr en þeir verða búnir að ganga frá samningum við ASÍ fyrst. Því er staða 3000 manna stéttarfélags afar erfið til aðgerða en þolinmæði félagsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands er gjörsamlega að þrotum komin,“ skrifar Vilhjálmur.

Hann segir að verkalýðshreyfingin verði að grípa til aðgerða og leggur Vilhjálmur til að „Alþýðusamband Íslands skipuleggi allsherjarverkfall í einn dag til að byrja með til að mótmæla þessu ofbeldi Samtaka atvinnulífsins. Ef ekkert gerist af hálfu forystu Alþýðusambands Íslands þá er einsýnt að íslenskir launþegar þurfa að grípa sjálfir til róttækra aðgerða því þetta aðgerðaleysi forystu ASÍ og ofbeldi af hálfu SA er alls ekki hægt að líða lengur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert