Frumvarp velferðarráðherra um breytingu á lögum um húsnæðismál var samþykkt á Alþingi í gær. Með breytingunni er Íbúðalánasjóði veitt heimild til að færa niður veðkröfur heimila sem eru umfram 110% af verðmæti fasteignar.
Lagabreytingin er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna og samkomulagi ríkisstjórnarinnar frá desember síðastliðnum um víðtækar aðgerðir til að takast á við vandann. Settar voru verklagsreglur á grunni samkomulagsins fyrir lánveitendur á íbúðalánamarkaði um niðurfærslu veðkrafna og er Íbúðalánasjóður aðili að því. Samkvæmt heimildinni til Íbúðalánasjóðs getur hann fært niður veðkröfur vegna lána einstaklinga sé uppreiknuð staða krafnanna miðað við 1. janúar 2011 umfram 110% af verðmæti fasteignarinnar, auk nánari skilyrða sem fram koma í frumvarpinu.
Heimild Íbúðalánasjóðs er tímabundin og getur Íbúðalánasjóður tekið við umsóknum um niðurfærslu veðkrafna til 30. júní næstkomandi.
Niðurfærslur á veðkröfum koma aðeins til greina vegna skulda sem stofnað var til vegna kaupa eða byggingar fasteigna fyrir 1. janúar 2009. Heimildin mun ekki ná til veðkrafna vegna endurbótalána sem voru umfram verðmæti eignarinnar við lánveitinguna.
Niðurfærsla veðkrafna í eigu Íbúðalánasjóðs getur að hámarki numið 4 milljónum króna fyrir einstakling og allt að 7 milljónum króna fyrir hjón, sambýlisfólk og einstæða foreldra. Skilyrði fyrir þessu er að lántaki eða maki hans eigi ekki aðrar aðfararhæfar eignir eða veðrými sem svarar að hluta eða öllu leyti til fyrirhugaðrar niðurfærslu á veðkröfum. Séu slíkar eignir fyrir hendi er fyrirhuguð niðurfærsla lækkuð sem því nemur. Ef veðsetning eignar eftir niðurfærslu miðað við þessi hámörk er enn yfir 110% af verðmati og greiðslubyrði lántakenda yfir 20% af heildartekjum þeirra er Íbúðalánasjóði heimilt að færa kröfur enn frekar niður og þá að hámarki um 15 milljónir króna hjá einstaklingi og 30 milljónir króna hjá hjónum, sambýlisfólki og einstæðum foreldrum.
Við verðmat fasteigna skal miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra. Telji Íbúðalánasjóður að skráð fasteignamat gefi ekki rétta mynd af verðmæti eignar skal hann á eigin kostnað afla verðmats löggilts fasteignasala. Sé fasteign ekki fullbyggð skal Íbúðalánasjóður ávallt afla verðmats löggilts fasteignasala á eigin kostnað.