Gríðarlegt tjón af hestapest

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Þótt erfitt sé að meta heildartjón vegna hóstapestarinnar sem kom upp í hestum í fyrra er ljóst að það nam a.m.k. mörg hundruðum milljóna króna, bæði hjá þeim sem starfa við hestamennska en ekki síður hjá ferðaþjónustunni í landinu. Þetta kemur fram í svari sem lagt var fram á Alþingi í dag.

Hestamennska hér á landi lamaðist þegar hóstapestin kom upp snemma árs 2010. Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannessonar, þingmanns, kemur fram að meðal þeirra sem höfðu atvinnu af hestamennsku hafi rekstur að jafnaði stöðvast í 4-12 vikur. 

Eins og fyrr segir er erfitt að meta tjónið en þó er hægt að líta til nokkurra mælanlegra þátta. Útflutningur hrossa dróst mikið saman en 431 færri hross voru flutt út á árinu 2010 miðað við árið 2009. Miðað við meðalverð  þá er beint tap sem hlaust af samdrættinum um 260 millj. kr.

Félag tamningamanna telur að reikna megi með að tekjutap á mánuði á tamningastöðvum þar sem starfa 2 til 3 hafi verið um 1,5 millj. kr. án virðisaukaskatts. Þetta á við um um stöðvar þar sem eru um 25 hross í tamningu auk járningaþjónustu og öðru því er fylgir.

„Í samantekt sem unnin var af sérgreinadýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, í samvinnu við Félag hrossabænda og búnaðarsamböndin í landinu, kemur fram að um 260 aðilar á landinu eru með umtalsverðan rekstur tengdan hestum, en yfirleitt er þar um að ræða smáar rekstrareiningar með 1 til 3 störf en sums staðar fleiri. Hjá reiðkennurum sem starfa sjálfstætt má reikna með tapi upp á um 1,2 millj. kr. án virðisaukaskatts hvern mánuð, segir í svarinu.

 Vafalaust sé því að tap innan tamninga-, þjálfunar- og reiðkennslugeirans vegna þessa faraldurs hafi hlaupið á hundruðum milljóna, auk þess sem járningamenn gætu hafa misst af tekjum upp á tugi milljóna. 

Þá hafi kostnaður vegna veikindanna, s.s. vegna dýralækna, lyfja, fóðurskostnaðar vegna hrossa sem ekki fóru á afrétt sjálfsagt numið tugum milljóna einnig.

Tjón vegna þess að ýmsar sýningar féllu niður hafi numið um 200 milljónum fyrir eigendur hrossa, að því að talið er. Heildartjón greinarinnar og tengdra greina af því að fresta þurfti landsmóti hestamanna hlaupi á hundruðum milljóna. 

Reiðvöruverslanir hafi orðið fyrir stórtjóni, líklega á bilinu 80-100 milljónir. 

Þá hafa samtök hestamanna giskað á að tap ferðaþjónustunnar hafi numið um 800 milljónum vegna þess að landsmótið var fellt niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert