„Við erum hissa á þessari yfirlýsingu Samtaka atvinnulífsins frá því í morgun. Það er góður gangur í vinnunni. Hvorki við né viðsemjendur SA hafa ljáð máls á því að gera framtíðarfyrirkomulag sjávarútvegsmála að hluta af þessum viðræðum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi nú fyrir stundu.
SA lýstu því yfir í morgun að þau myndu ekki hefja lokaatlögu að ljúka kjarasamningum á morgun eins og til stóð. Of mörg stórmál væru enn á huldu hjá ríkisstjórninni eins og stórframkvæmdir, lífeyrirréttindi almennings og skattamál fyrirtækja.
Sagði Steingrímur sjálfstætt mál hvernig farið verði með þau mál. Engin ástæða væri til að ætla að ekki gæti gengið saman um þá þætti sem SA hefðu borið upp við stjórnina og tengjast umgjörð kjarasamninga.
„Auðvitað þurfa menn að semja og svona uppákomur leysa menn ekkert undan ábyrgð á að ná kjarasamningum. Grunnhlutverk aðila vinnumarkaðarins er að ná saman um kaup og kjör. Þeir ættu kannski að snúa sér að meiri alvöru að því,“ sagði Steingrímur.