Ísland mótmælir banni á innflutningi á selaafurðum

mbl.is/Brynjar Gauti

Ísland hefur lýst yfir stuðningi við Noreg og Kanada í máli þeirra gegn Evrópusambandinu vegna reglugerðar ESB sem kveður á um bann við innflutningi (viðskipti) með selaafurðir á markaðssvæði ESB.

Var þetta gert á fundi í deilunefnd Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar (WTO) þann 25. mars sl.

Þá óskaði Ísland jafnframt eftir því að taka þátt í málsmeðferð kærunefndar í máli Kanada og Noregs gegn Evrópusambandinu sem þriðji aðili, að því er segir í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytinu.

„Þessi ákvörðun er fullu í samræmi við fyrri yfirlýsingar Íslands á alþjóðavettvangi en í september sl. var Ísland aðili að sameiginlegri yfirlýsingu á vettvangi Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) ásamt Noregi, Grænlandi, Færeyjum, Rússlandi, Japan og Kanada, þar sem innflutningsbanninu var mótmælt, þar sem það græfi undan alþjóðlega viðurkenndum grundvallarreglum um verndun og nýtingu sjávarauðlinda í Norður-Atlantshafi. Ennfremur var í yfirlýsingunni bent á að bannið gengi gegn rétti manna til þess að nýta náttúruauðlindir á ábyrgan og sjálfbæran hátt, auk þess að nýta sér alþjóðleg viðskiptatækifæri. Einnig var undirstrikað að verndun og nýting lifandi auðlinda hafsins ætti að taka mið af vísindalegum rannsóknarniðurstöðum og því talið að innflutningsbann ESB væri mikil afturför fyrir sjálfbæra þróun og alþjóleg viðskipti,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að í apríl 2009 hafi sendiráð Íslands í Brussel sent skjal til aðildarríkja ESB, framkvæmdastjórnar ESB og fastanefndar Tékklands, þar sem komið hafi fram andstaða Íslands við að bann yrði sett við sölu selaafurða innan sambandsins. Þá segir að þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafi jafnframt sent bréf til Joe Borg, framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála ESB, þar sem áhyggjur af yfirvofandi lagasetningu og rök Íslands gegn því að banni yrði komið á með viðskipti með selaafurðir hafi verið sett fram.

Það hafi einnig verið á ráðherrafundi sjávarútvegsráðherra við Norður Atlantshaf (NAFMC) í Kanada í júlí sl. sem sjávarútvegs-og lanbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hafi lýst yfir stuðningi sínum við fyrirhugaðan málatilbúnað Kanada vegna málsins á vettvangi WTO.

„Þótt  þessi deila snúist um viðskipti með selaafurðir þá snýst þessi deila í reynd um stærra mál, það grundvallaratriði að nýti þjóðir náttúruauðlindir sínar með sjálfbærum hætti þá hafi þær rétt til að eiga viðskipti með þær á alþjóðavettvangi,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert