Fréttaskýring: Lánveitingar til OR í frosti

Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar pantað og greitt inn á fimm …
Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar pantað og greitt inn á fimm túrbínur. Tvær fara upp á Hellisheiði, en óljóst er hver verða afdrif hinna þriggja. mbl.is/RAX

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR (Orkuveitu Reykjavíkur), sagði hér í Morgunblaðinu í gær, að áætlun vegna skuldavanda fyrirtækisins væri í vinnslu og yrði vonandi kynnt fljótlega. Á því kann hins vegar að verða nokkur dráttur, þar sem lítið hefur miðað hjá forsvarsmönnum OR að tryggja fyrirtækinu endurfjármögnun, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Til dæmis kom fram í hádegisfréttum RÚV í gær að lánveiting frá Norræna fjárfestingarbankanum komi ekki til greina, vegna lágs lánshæfismats OR. Vitnað var í minnisblað forstjórans, þessu til staðfestingar.

OR fékk lánsvilyrði frá Evrópska fjárfestingarbankanum (European Investment Bank) sumarið 2008, þ.e. vel fyrir hrun, en lánið hafði ekki verið afgreitt, þegar bankahrunið varð í byrjun október 2008.

Héldu lengi að sér höndum

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hélt Evrópski fjárfestingarbankinn lengi að sér höndum eftir hrun, en í árslok 2009 var lánið upp á um 30 milljarða króna afgreitt til OR. Það var þó ekki gert fyrr en forsvarsmenn OR höfðu fengið ákveðinn stuðning frá fjármálaráðuneytinu, sem fólst í því að ráðuneytið gaf út ákveðið stuðningsbréf, sem varð til þess að OR fékk lánið afgreitt.

Þegar þetta var stóð til að Þróunarbanki Evrópu lánaði það sem upp á vantaði, eða 30 milljarða króna.

Þróunarbankinn hætti síðan við þátttöku í lánveitingum til OR og samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var sú ákvörðun tekin, vegna þess að stjórn bankans hafði ákveðið stefnubreytingu fyrir bankann, sem fólst í því að bankinn ákvað að veita ekki lán til raforkuframleiðslu, nema það væri fyrir almennan markað, þ.e. ekki til þess að selja til stóriðju. Þessi stefnubreyting Þróunarbankans mun hafa komið forsvarsmönnum OR algjörlega í opna skjöldu.

Á þessum tíma voru forsvarsmenn OR og þáverandi fjármálastjóri fyrirtækisins, Anna Skúladóttir, einnig í samningaviðræðum við Norræna fjárfestingarbankann (NIB) um endurfjármögnun og breytingar á lánaskilmálum, m.a. hækkun á álagi á sumum lánanna, sem höfðu borið mjög lágt álag á libor-vexti. Og lauk þeim viðræðum með því að endursamið var um nokkur lán með hækkuðu álagi.

NIB setti skilyrði

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins töldu forsvarsmenn OR á þessum tíma, þ.e. í fyrravor og fram eftir sumri, að þeir hefðu vilyrði NIB fyrir því að bankinn kæmi að fjármögnun frekari virkjana. Þau vilyrði NIB munu þó hafa verið ákveðnum skilmálum háð, eins og þeim að OR réðist í ákveðna hagræðingu og aukna tekjuöflun, t.d. með hækkun gjaldskrár. Þau ákvæði settu OR í ákveðna spennitreyju, þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, hafði hafnað því alfarið að gjaldskrá OR til almennings yrði hækkuð.

Samt sem áður var í fyrravor og fram eftir sumri unnið að áætlun sem forsvarsmenn OR gerðu ráð fyrir að dygði til þess að NIB afgreiddi umrætt lán til OR. Vinnan við þá lánveitingu NIB til OR var samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins komin svo vel á veg, að þegar OR hefði sýnt fram á ákveðna hagræðingu hjá fyrirtækinu og hækkun á gjaldskrá, þá var búið að fastsetja að umsókn OR færi fyrir stjórnarfund hjá NIB í október eða nóvember 2009 og jafnframt að hún yrði afgreidd kringum áramótin 2009-2010.

Í bígerð var einnig að ræða við forsvarsmenn annarra lánveitenda OR, t.d. bankanna Fortis og Dexía, bæði um skuldbreytingu ákveðinna lána og lengingu í öðrum lánum. Sú áætlun komast aldrei til framkvæmda, þar sem Hjörleifi Kvaran, fyrrverandi forstjóra OR, var sagt upp störfum í ágúst í fyrra af stjórnarformanninum, Haraldi Flosa Tryggvasyni, sem tilkynnti honum að hann nyti ekki trausts lengur. Í kjölfarið var 65 starfsmönnum OR svo sagt upp störfum í október í fyrra og loks var Önnu Skúladóttur fjármálastjóra sagt upp.

Fullyrt er að ábyrgðarlitlar yfirlýsingar Jóns Gnarr, borgarstjóra, bæði á Fésbókarsíðu sinni og í fjölmiðlum, um gjaldþrot OR og að fyrirtækið sé á vonarvöl, hafi ekki auðveldað núverandi forsvarsmönnum OR endurfjármögnun fyrirtækisins.

„Svona umsagnir eru náttúrlega ekkert annað en bannyrði, þegar verið er að reyna að ná fram hagkvæmum samningum um endurfjármögnun,“ segir viðmælandi.

Orkusölusamningar skilyrði

OR telur að ekki séu lengur í gildi raforkusölusamningar við Norðurál, vegna Helguvíkur, en Norðurál er á öndverðum meiði, eins og fram hefur komið. Hvort sem samningurinn er í gildi eða ekki er óhætt að fullyrða að sá samningur er í uppnámi.

Til þess að fjármagna frekari framkvæmdir við Hverahlíðarvirkjun, verður OR að hafa orkusölusamning frágenginn, sem sýni fram á öruggt tekjuflæði, sem þá m.a. stendur undir afborgunum af lánum. Þar sem ágreiningur er um það hvort slíkur samningur er í gildi eða ekki geta forsvarsmenn OR ekki farið með skilyrðislausan orkusölusamning til þeirra fjármálastofnana sem hugsanlega myndu fjármagna framkvæmdirnar og því er lánsfjármögnun ekki möguleg, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Fimm túrbínur pantaðar

Eitt sem gerir það að verkum að fjárhagsstaða er jafnerfið og raun ber vitni hjá OR er sú staðreynd að Orkuveita Reykjavíkur var búin að panta fimm túrbínur vegna virkjana og virkjanaáforma. Þegar eru komnar til landsins tvær túrbínur sem verða teknar í notkun uppi á Hellisheiði í haust, en þrjár aðrar túrbínur, sem búið er að panta og borga inn á, eru bara í biðstöðu úti í heimi. Tvær þeirra áttu að fara í Hverahlíðarvirkjun og sú þriðja í Gráuhnjúka, en enn hefur engin ákvörðun verið tekin um að fara í þessar virkjanir, bæði vegna þess að lánveitingar hafa ekki fengist og orkusölusamningur liggur ekki fyrir. Staðan er því sú að vaxtagreiðslur leggjast við dag hvern vegna þriggja túrbína sem búið var að panta, en ekki er fyrirséð að byggt verði yfir þær á næstunni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert