Samtök atvinnulífsins (SA) greindu ríkisstjórninni frá því í gærkvöld að þau mundu ekki hefja svokallaða lokaatlögu á morgun að því að reyna að ljúka kjarasamningum. Svo margt stæði út af í viðræðum við stjórnina að slíkt væri ekki mögulegt.
Þetta staðfesti Vilmundur Jósefsson, formaður SA, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.
„Við höfum viljað vera þátttakendur í því, með ASÍ og ríkisstjórninni, að reyna að klára samningamálin í vikunni og hefja lokalotuna á miðvikudag. Staðan er hins vegar sú að það er svo margt sem stendur út af, gagnvart ríkisstjórninni, svo mörg stór mál, að við sjáum okkur alls ekki fært að gera það,“ segir Vilmundur í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir að þetta sé ákvörðun SA en samtökin vilji nú leggja áherslu á að fá ýmislegt fram í dagsljósið, sem enn sé á huldu, eins og það að framkvæmdapakkinn svonefndi, á vegum ríkisstjórnarinnar, sé afar rýr að innihaldi og ekkert sem hönd sé á festandi varðandi hann.