Sjö starfsmenn embættis sérstaks saksóknara tóku þátt í aðgerðum lögreglunnar í Lúxemborg í dag, sem framkvæmdi tvær húsleitir samtímis á grundvelli réttarbeiðna frá embættinu og efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar (Serious Fraud Office).
M.a. var leitað á skrifstofum Banque Havilland. Talsmaður bankans segir í samtali við Wall Street Journal að leitin á skrifstofum bankans tengist ekki núverandi starfsemi bankans heldur fyrrum viðskiptavinum Kaupþings, sem var með útibú í sama húsnæði fyrir hrun bankans. Talsmaður segir ennfremur að Banque Havilland starfi með yfirvöldum við leitina.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara að aðgerðirnar varði rannsóknir sérstaks saksóknara á málum er tengist Kaupþingi banka, en sökum þess hve rannsóknirnar séu á viðkvæmu stigi sé ekki unnt að gefa nánari upplýsingar um þau mál sem hér um ræðir.
Segir að aðgerðirnar hafi verið umfangsmiklar. Alls hafi 55 lögreglumenn frá lögreglunni í Lúxemborg tekið þátt í þeim, en 7 starfsmenn embættis sérstaks saksóknara hafi verið þeim til aðstoðar.
Embætti sérstaks saksóknara er ekki unnt að gefa frekari upplýsingar um aðgerðirnar að svo stöddu, að því er segir í tilkynningu.