Fréttaskýring: VG styður ekki aðkomu NATO-ríkja í Líbíu

Frönsk rafale orrustuþota gerð klár í gær til árásarferðar af …
Frönsk rafale orrustuþota gerð klár í gær til árásarferðar af flugmóðurskipinu Charles de Gaulle við Líbýustrendur. reuters

Utanríkismálanefnd Alþingis var kölluð saman til aukafundar í gærkvöldi þar sem rædd var aðkoma íslenskra stjórnvalda að samþykkt NATO um stjórnun bandalagsins á hernaðaraðgerðum í Líbíu.

Óskaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir fundinum í kjölfar umræðna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær þar sem fram kom í máli Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, að Vinstri grænir styddu ekki að NATO tæki við stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu. Vinstri grænir hefðu ekki verið spurðir og ríkisstjórnin ekki fjallað um málið.

Í sama streng tók Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í samtali við Morgunblaðið, aðkoma NATO væri ekki með stuðningi Vinstri grænna. Hann hefði heldur ekki verið upplýstur um samþykkt NATO og ákvörðun íslenskra stjórnvalda í þeim efnum. Sagði Ögmundur að verið væri að grafa undan vægi Sameinuðu þjóðanna með því að nýta „loðnar yfirlýsingar“ öryggisráðsins til hernaðaraðgerða. Sagði Ögmundur að málið yrði væntanlega rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Steingrímur sagðist í þingumræðunum ekki hafa upplýsingar um hvernig staðið var að málinu hjá NATO. Sjálfur hefði hann verið í Færeyjum og ekki vitað af niðurstöðunni fyrr en í gær og hefði engar upplýsingar um hvernig þetta fór fram.

„Persónulega þykir mér afar ólíklegt að öll NATO-ríki hafi stutt með pósitívum hætti þessar aðgerðir,“ sagði Steingrímur og nefndi m.a. Þjóðverja og Tyrki, „og ég vona svo sannarlega að Ísland hafi verið í þeim hópi.“

Utanríkismálanefnd upplýst

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, sem kominn er til Lundúna á fund utanríkisráðherra um stöðuna í Líbíu og aðgerðir NATO, sagði við Morgunblaðið í gær að allar aðgerðir þar í landi byggðust á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær ályktanir hefðu verið kynntar í ríkisstjórninni og hún formlega lýst stuðningi við þær. Sagði Össur að á fundinum í Lundúnum yrði m.a. reynt að tryggja að aðgerðir NATO í Líbíu færu ekki fram úr ályktunum öryggisráðs SÞ.

Samþykkt NATO sem slík var ekki borin undir utanríkismálanefnd Alþingis um helgina en Össur segir nefndina hafa verið upplýsta um stöðu mála í síðustu viku er allt stefndi í að NATO tæki að sér stjórnun aðgerða í Líbíu. Ennfremur hafi verið ljóst að NATO vildi ganga skemur heldur en sum þeirra ríkja sem strax höfðu gripið til beinna aðgerða. „Ég var því afdráttarlaust fylgjandi að það ætti að ganga skemur heldur en manni virtist einstakar þjóðar ætla að gera, eins og Frakkar.“

Málið rætt tvisvar á Alþingi

Össur sagði reginmun vera á umfjöllun íslenskra stjórnvalda um aðgerðir í Líbíu og samráði við þingið, borið saman við innrásina í Írak á sínum tíma. „Málið hefur verið rætt tvisvar utan dagskrár á Alþingi og þar hefur verið algjör einhugur meðal þingmanna. Þá þegar var nokkuð ljóst að alþjóðasamfélagið kallaði eftir aðkomu Atlantshafsbandalagsins til að framfylgja ályktunum öryggisráðsins. Á þeim vettvangi hefur Ísland mælt fyrir samstöðu allra ríkja, og þá ekki síst þeirra ríkja sem fóru á undan í aðgerðir eins og Frakkar og fleiri, og einnig þeirra ríkja sem stóðu ekki að ályktun öryggisráðsins, eins og Þjóðverjar og Tyrkir, sem hafa nálgast málið öðruvísi vegna áhrifa þeirra á svæðinu,“ sagði Össur.

Hann sagði að í umræðunum á Alþingi hefði komið skýrt fram að hann hefði ekki verið sá sem lengst vildi ganga. „Mjög nýlega, og áður en okkar afstaða var tekin, var málið kynnt í utanríkismálanefnd og með engum hætti undan dregið hvert við stefndum. Alþingi Íslendinga veit nákvæmlega um afstöðu stjórnvalda og hefur ekki lýst annarri afstöðu,“ sagði Össur og benti á að í þingumræðum hefðu ekki komið neinar mótbárur við afstöðu stjórnvalda.

Spurður hvort millilendingar herja NATO-ríkja yrðu heimilaðar hér á landi vegna aðgerða í Líbíu sagðist Össur reikna með því, ef slík beiðni byggðist á aðgerðum sem samþykktar hefðu verið í krafti ályktana öryggisráðs SÞ, sem Ísland hefði lýst stuðningi við. Hins vegar hefðu engar slíkar ákvarðanir verið teknar, þar sem engin slík beiðni hefði komið fram.

Tvískinnungur Vinstri grænna

Össur tók þátt í fundi utanríkismálanefndar þingsins í gærkvöldi í gegnum síma. Þar sagði hann meðal annars að hann hefði allan tímann litið svo á að umboð sitt til þess að styðja það að Atlantshafsbandalagið tæki við stjórn aðgerðanna væri óskorað. Bjarni Benediktsson segir þetta, auk þess að ályktun öryggisráðsins hafi kallað á hernaðaraðgerðir, gera andstöðu Vinstri grænna óskiljanlega. Allir skynsamir menn hafi séð að nauðsynlegt hafi verið að lama varnir Líbíumanna til þess að koma á flugbanni yfir landinu. Það stoði lítt að lýsa yfir andstöðu sinni eftir á. Hann segir Vinstri græna verða að horfast í augu við stöðu sína sem annar ríkisstjórnarflokkanna, hann beri sem slíkur ábyrgð á þeim ákvörðunum sem stjórnvöld taki.

Bjarni líkir afstöðu þeirra við það að vera fylgjandi því að sprengjum sé varpað, svo lengi sem þær ekki springi. Afstaða þeirra sé tómur tvískinnungsháttur.

Rætt um Líbíu
» Össur Skarphéðinsson situr í dag fund í London þar sem utanríkisráðherrar NATO, Arababandalagsins og fleiri ríkja munu ræða stöðuna í Líbíu og aðgerðir NATO þar.
» Ríkisstjórnin kemur einnig til fundar í dag þar sem málið verður rætt, að sögn Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert