Utanríkismálanefnd Alþingis var kölluð saman til aukafundar í gærkvöldi þar sem rædd var aðkoma íslenskra stjórnvalda að samþykkt NATO um stjórnun bandalagsins á hernaðaraðgerðum í Líbíu.
Óskaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir fundinum í kjölfar umræðna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær þar sem fram kom í máli Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, að Vinstri grænir styddu ekki að NATO tæki við stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu. Vinstri grænir hefðu ekki verið spurðir og ríkisstjórnin ekki fjallað um málið.
Í sama streng tók Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í samtali við Morgunblaðið, aðkoma NATO væri ekki með stuðningi Vinstri grænna. Hann hefði heldur ekki verið upplýstur um samþykkt NATO og ákvörðun íslenskra stjórnvalda í þeim efnum. Sagði Ögmundur að verið væri að grafa undan vægi Sameinuðu þjóðanna með því að nýta „loðnar yfirlýsingar“ öryggisráðsins til hernaðaraðgerða. Sagði Ögmundur að málið yrði væntanlega rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Steingrímur sagðist í þingumræðunum ekki hafa upplýsingar um hvernig staðið var að málinu hjá NATO. Sjálfur hefði hann verið í Færeyjum og ekki vitað af niðurstöðunni fyrr en í gær og hefði engar upplýsingar um hvernig þetta fór fram.
„Persónulega þykir mér afar ólíklegt að öll NATO-ríki hafi stutt með pósitívum hætti þessar aðgerðir,“ sagði Steingrímur og nefndi m.a. Þjóðverja og Tyrki, „og ég vona svo sannarlega að Ísland hafi verið í þeim hópi.“
Samþykkt NATO sem slík var ekki borin undir utanríkismálanefnd Alþingis um helgina en Össur segir nefndina hafa verið upplýsta um stöðu mála í síðustu viku er allt stefndi í að NATO tæki að sér stjórnun aðgerða í Líbíu. Ennfremur hafi verið ljóst að NATO vildi ganga skemur heldur en sum þeirra ríkja sem strax höfðu gripið til beinna aðgerða. „Ég var því afdráttarlaust fylgjandi að það ætti að ganga skemur heldur en manni virtist einstakar þjóðar ætla að gera, eins og Frakkar.“
Hann sagði að í umræðunum á Alþingi hefði komið skýrt fram að hann hefði ekki verið sá sem lengst vildi ganga. „Mjög nýlega, og áður en okkar afstaða var tekin, var málið kynnt í utanríkismálanefnd og með engum hætti undan dregið hvert við stefndum. Alþingi Íslendinga veit nákvæmlega um afstöðu stjórnvalda og hefur ekki lýst annarri afstöðu,“ sagði Össur og benti á að í þingumræðum hefðu ekki komið neinar mótbárur við afstöðu stjórnvalda.
Spurður hvort millilendingar herja NATO-ríkja yrðu heimilaðar hér á landi vegna aðgerða í Líbíu sagðist Össur reikna með því, ef slík beiðni byggðist á aðgerðum sem samþykktar hefðu verið í krafti ályktana öryggisráðs SÞ, sem Ísland hefði lýst stuðningi við. Hins vegar hefðu engar slíkar ákvarðanir verið teknar, þar sem engin slík beiðni hefði komið fram.
Bjarni líkir afstöðu þeirra við það að vera fylgjandi því að sprengjum sé varpað, svo lengi sem þær ekki springi. Afstaða þeirra sé tómur tvískinnungsháttur.
Rætt um Líbíu