Á móti skyldunotkun á stígum

Svokallaðir 2+1 stígar eru víða á höfuðborgarsvæðinu. Þeir duga í …
Svokallaðir 2+1 stígar eru víða á höfuðborgarsvæðinu. Þeir duga í mesta lagi fyrir eitt hjól í einu en alls ekki fyrir þrjá hjólreiðamenn. Víða er erfitt að sjá línuna og hver og einn verður að meta hvort hún sé úr gildi fallin eða bara orðin lúin og máð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) gera athugasemd við að í frumvarpi til nýrra umferðarlaga verður lagt bann við að hjóla annars staðar en á merktum hjólareinum eða -brautum, þar sem slíkar hjólabrautir eru til staðar. Þau benda m.a. að lagðir hafi verið hjólastígar sem auki beinlínis hættu fyrir hjólreiðamenn.

Í 16. grein frumvarpsins segir að þar sem eru sérstakar reinar eru fyrir mismunandi tegundir ökutækja skal ökumaður nota þá rein sem ökutæki hans er ætluð. Öll tæki á hjólum falla undir skilgreiningu á ökutæki og því á þessi grein við um reiðhjól. LHM vilja að hjólreiðamenn verði undanþegnir þessu ákvæði.

„Því miður eru nokkur dæmi þar sem sveitarfélög hafa af ónógri þekkingu sett niður brautir, án nokkurs samráðs við hjólreiðamenn eða í samræmi við nokkurn þekktan staðal hérlendis eða erlendis, gjarnan þar sem megintilgangur hefur verið að þrengja að akandi umferð, og kallað hjólastíga. Stígar þessir eru hins vegar þannig hannaðir að þeir draga úr öryggi hjólreiðamanna og því hlýtur krafa um skyldunotkun hjólreiðamanna á slíkum stígum að vinna mjög gegn 1. gr. laganna, þ.e. markmiðum um örugga umferð,“ segir í umsögn LHM sem skilað hefur verið inn til samgöngunefndar Alþingis.

Reyna ekki að ryðja stíg í Lönguhlíð

Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, segir að versta dæmið sé í Lönguhlíð í Reykjavík. „Stígurinn er nokkuð frá götunni þannig að hjólreiðamaður er ekki í sjónsviði bílstjóra og það skapar hættu þegar bílstjórar beygja til hægri,“ segir Árni en sá sem ekur Lönguhlíðina til suðurs getur víða beygt inn til hægri.

Árni segir að stígurinn sé einfaldlega illa hannaður. Ekki sé hægt að ryðja hann vegna ýmissa upphækkana og hann sé aldrei ruddur. „Þeir reyna það ekki einu sinni,“ segir hann. Þá sé hann ýmist breiður eða mjór sem geti valdið ruglingi.

Stígurinn sé hins vegar fallegur á að líta og hafi efalaust kostað sitt. Líklega hafi þó tilgangur hans einkum verið að þrengja að akbrautinni til að draga úr umferðarhraða í Lönguhlíð, fremur en að bæta aðstöðu hjólreiðamanna. Það væri hins vegar vel hægt að hafa góðan hjólastíg meðfram akbrautinni.

Þarf ekki að neyða fólk til að nota góða stíga

Í 41. grein frumvarpsins er ákvæði um að ef hjólastígur er samhliða göngustíg sé einungis heimilt að hjóla á hjólastígnum. LHM telur hins vegar nauðsynlegt að hjólreiðamenn hafi svigrúm til að nota þau umferðarmannvirki sem hentugust og öruggust eru hverju sinni fyrir ferð hjólreiðamannsins. „Hönnun og merkingar hjólastíga og hjólareina ættu almennt að duga til að hjólandi noti stíga og reinar þeim ætlaðar. Gönguleiðir með blandaðri umferð gangandi og hjólandi skal ávallt líta á sem varaleið, t.d. fyrir börn, en ekki sem aðalleið hjólreiðamanna enda er hann settur í llt aðra og lakari réttarstöðu þar,“ segir í umsögninni. Gæta þurfi jafnræðis milli vegfarenda, óháð samgöngumáta.

Árni segir að ef hið opinbera leggi ekki almennilega hjólastíga eða hjólareinar geti þetta ákvæði skapað hættu. „Ef menn búa til almennileg hjólamannvirki sem henta þá verða þau notuð – það þarf ekki að neyða fólk til að nota það sem er gott,“ segir hann.

Gæti bannað hjólreiðar án hjálms

LHM hafa líka gert verulegar athugasemdir við að í frumvarpinu er innanríkisráðherra veitt heimild til að gera hjálmanotkun við hjólreiðar að skyldu. Samtökin eru alls ekki andvíg hjálmanotkun, heldur að hún verði að skyldu. 

Meðal þess sem  LHM benda á er:

„Með hjálmaskyldu er ekki bara verið að skylda hjólreiðamenn til að nota hjálm. Það r líka verið að banna hjólreiðar án hjálms. Þessu má líkja við að banna göngu án hjálms/endurskinsvestis eða hvað eina sem stjórnvöldum kann að detta í hug og gæti talist öryggis- og varnarbúnaður.

Hjálmaskylda er líkleg til að draga úr hjólreiðum og vinna þar með gegn markmiðum stjórnvalda í loftlagsmálum, lýðheilsumálum, umhverfismálum og markmiðum sveitarfélaga um mannvænlegt umhverfi í borgum og bæjum.

Hjálmaskylda er líkleg til að auka slysalíkur hvers einstaks hjólreiðamanns.

Hjálmaskylda gefur í skyn að hjólreiðar séu hættuleg iðja og hættulegri en t.d. ganga eða akstur. Hjólreiðar eru þó síst hættulegri en ganga eða akstur og valda heldur ekki dauða eða limlestingum í umferðinni eins og bílar.

Með hjálmaskyldu er brotið á jafnræði samgöngumáta enda er hjólreiðamönnum ekki hættari við höfuðmeiðslum en öðrum vegfarendahópum.“

Hægt er að lesa umsögnina í heild sinni hér.

Merkingin um aðskilnað hjólandi og gangandi vegfarenda virðist aukaatriði enda …
Merkingin um aðskilnað hjólandi og gangandi vegfarenda virðist aukaatriði enda engin umferð hjólreiðafólks þegar myndin var tekin. mbl.is/Friðrik Tryggvason
Árni Davíðsson formaður Landsambands hjólreiðamanna.
Árni Davíðsson formaður Landsambands hjólreiðamanna. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert