„Við þurfum að fara yfir öll þau mál sem standa út af borðinu gagnvart ríkisstjórninni til þess að koma þessum ágætu samningum áfram,“ segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Í umfjöllun um samningamálin í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að aðilar vinnumarkaðarins muni funda með ríkisstjórninni klukkan 9 í dag og verði þá farið yfir stöðuna sem upp er komin í kjaraviðræðum. Líklegt er að þjarmað verði að stjórnvöldum á fundinum. „Það er heill bunki sem er ekki búið að koma neinu skikki á,“ segir Vilmundur og nefnir gjaldeyrishöftin, skattamál, fyrirheit um framkvæmdir og sjávarútvegsmál sem dæmi. Þessi mál þurfi að fá á hreint til þess að hægt sé að koma atvinnulífinu af stað.
„Markmið þessa fundar [í dag] er að fá úr því skorið hvort stjórnvöld hafa á þessu áhuga. Miðað við þau viðbrögð sem við höfum verið að fá verður maður í hreinskilni sagt ekki var við það,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.