„Menn unnu mjög vel og lögðu mikið í kostnað og ég held að menn hafi fengið hverja krónu til baka,“ segir Kristinn Örn Jóhannesson, sitjandi formaður VR, um kosningar til formanns félagsins sem fram fóru í dag. Stefán Einar Stefánsson bar sigur úr býtum og hlaut 20,6% atkvæða.
Kristinn hlaut 9,9% greiddra atkvæða, næstlægsta atkvæðahlutfall þeirra sjö sem í framboði voru.
„Ég hef ekki unnið að þessari kosningu með neinum hætti, ekki lagt í neinn kostnað og bara verið upptekinn af kjarasamningum og þess háttar svo að ég er alveg sáttur,“ segir Kristinn um niðurstöðu kosningarinnar. Hann segist telja að úrslitin hafi fyrst og fremst ráðist af þeirri vinnu og því fé sem menn lögðu í kosningabaráttuna.
Þátttaka í kosningunum var dræm að þessu sinni en 17% félaga í VR tóku þátt. Þetta er töluvert minna en síðast þegar kosið var til formanns og stjórnar árið 2009 en þá var kjörsóknin 27%. Kosið var til stjórnar í fyrra og þá var kjörsóknin aðeins um 7%.
„Ég verð að segja eins og er að þátttakan sem slík kemur mér ekki á óvart, þetta er einmitt vandi verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálaflokkanna að þó svo að það séu fjölmargir skráðir félagar eru þeir meira og minna passívir,“ segir Kristinn.
Kristinn lætur af störfum formanns á aðalfundi VR sem verður seint í apríl. Tekur Stefán Einar þá við embættinu.
Niðurstöður í kosningunum voru eftirfarandi: